TFK sigurvegarar í meistaraflokk kvenna

4 – 7. júlí var haldin liðakeppni TSÍ á Víkingsvöllum. Anna Soffía Grönhólm og Eva Diljá Arnþórsdóttir tóku þátt fyrir hönd TFK í meistaraflokk kvenna og sigruðu mótið með stæl. 

Fyrstu leikir voru á móti Fjölni og keppinautar voru Bryndís Rósa Armes Nuevo, Saule Zukauskaite og Eygló Dís Ármannsdóttir. Eva Diljá fékk erfiðan leik á móti Bryndísi og tapaði leiknum 1-6 3-6 en Anna Soffía vann sinn leik gegn Saule með vissum sigri 6-1 6-1. Að lokum kepptu stelpurnar okkar á móti Bryndísi og Eygló og sigruðu 9-4, lokatalan var því 2-1 fyrir TFK og stelpurnar komnar í úrslit.

Úrslitaleikirnir voru á móti Víking og voru æsispennandi. Þar keppti fyrst Eva Diljá á móti Kristíni Ingu Hannesdóttir. Það var góð barátta í leiknum og eftir tvö erfið sett og úrslita tiebreak stóð Eva Diljá uppi sem sigurvegari með markatölu sem hélt öllum á brúninni :  6-4 3-6 10-5. Anna Soffía keppti seinni leik á móti Garimu Nitinkumar, þetta var hörkuleikur en Anna stóð sig vel og sigraði leikinn 6-3 5-7 10-8. Í tvíliðaleiknum reyndist liðsvinna TFK ósigrandi og stelpurnar tryggðu öruggan 9-5 sigur og innsigluðu samninginn með lokatölunni 3-0.